Vondir fjölmiðlar og vond ríkisstjórn

Kveðjubréf

Capitalism
Ég flutti út af því ég var búinn að missa vonina, fannst ég kominn í blindgötu. Þurfti að taka góða u-beygju til að halda geðheilsunni. Þurfti að komast burt af þessu skeri.

En þessi útþrá var allt öðruvísi en áður. Oft hefur mér leiðst Ísland. Veðrið, einsleitnin og jafnvel fólkið. Oft hef ég þurft að komast eitthvert þar sem veröldin var ný. En um sumt hefur mér fundist Ísland betra undanfarin misseri. Það eru alls konar skemmtilegar menningarhátíðir úti á landi sem hafa að mestu leyst innantómar fylleríshátíðir af hólmi (það er vissulega sötrað öl á þessum hátíðum, en þær hverfast samt um eitthvað alvöru inntak – fólk er mætt þarna af ástæðu, það skiptir máli. Þá verður skrallið líka miklu skemmtilegra, ef fólk hefur einhverjar upplifanir til að tala um sem sameina það).

Sömuleiðis hefur Reykjavík hægt og rólega orðið lífvænlegri sem borg – það er komið menningarbíó í miðbæinn, nóg af hostelum til þess að fá hingað ferðalanga sem eru ekki bara moldríkir uppar og kaffihúsin, barirnir og veitingahúsin minna sífellt minna á iðnaðarhúsnæði og meira á mannabústaði.

Ég held það megi þakka þetta ýmsu. Góð borgarstjórn undanfarin ár á alveg skilið sitt hrós. En ég held það megi samt aðallega þakka þetta hruninu.

Íslendingar urðu einfaldlega miklu skemmtilegri þegar allt hrundi hérna haustið 2008. Krítískari, opnari og hugmyndaríkari. Minna útbelgdir af alls konar vitleysu, þjóðernisrembingi og kreddum.

Þetta átti auðvitað sérstaklega við hrunveturinn sjálfan, 2008-9. Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Við eyddum fáránlega mikilli orku í að tala um Icesave – og ég held sveimér þá að ég væri tilbúinn til þess að borga Icesave tvöfalt til baka ef þjóðin fengi öll þau þrasgjörnu ár af lífi sínu aftur. Einfaldlega út af því Icesave var fyrst og fremst risastór stífla í heilasellum þjóðar sem stöðvaði alla hugsun – drap alla þá lifandi deiglu sem hafði skapast í hruninu, drap niður miklu mikilvægara þras sem hvarf einhvers staðar í meltingarvegi Icesave sparigríssins. Drap niður þjóðina sem heimtaði nýja stjórnarskrá, þjóðina sem yppti svo bara öxlum þegar hún var svikin um þessa sömu stjórnarskrá.

En það hefur líka lengst af skort vettvang til þess að ræða þetta þjóðfélag af alvöru, fortíð þess, nútíð og framtíð. Fjölmiðlun hefur verið á þráðbeinni leið niður á við eftir hrunið – þótt það hafi að vísu verið ákveðið lífsmark rétt fyrst á eftir. Hrunveturinn þegar jafnvel Facebook var í alvörunni skemmtilegt, fullt af visku, hugleiðingum og rökræðum. Síðan breyttist það bara í vettvang þar sem fólk kinkar kolli yfir átakalitlum greinum sem það er sammála. Lækið tók yfir og lækirnir urðu sífellt grynnri.

Þetta byrjaði á því að Mogginn endaði í tröllahöndum og náði hámarki núna rétt eftir að ég yfirgaf landið þegar yfirstjórn Fréttablaðsins var hreinsuð út (ekki nema einu og hálfu ári eftir síðustu hreinsanir þar) og sömuleiðis yfirstjórn DV. Við erum að tala um að mögulega séu þrír stærstu prentmiðlar landsins orðnir nánast fullkomlega bitlausir (þótt ég leyfi mér enn að vona að DV nái sér aftur á strik, enda Hallgrímur og Jóhann Hauksson færir fjölmiðlamenn). Og það var ekki úr háum söðli að detta. Fréttablaðið var ekkert sérstakt áður en ég fór. Og DV var óþolandi skitsófrenískt – gagnrýnið og beitt á einni síðu en slúðurdrulla á þeirri næstu. Ég verð seint talinn einhver sérstakur aðdáandi ritstjórnarstefnu Mikaels Torfasonar – en það var engu að síður eitthvað rotið við það hvernig honum var bolað frá (sem og hinum ritstjórunum), og fátt sem benti til þess að það væri í nafni vandaðri og metnaðarfyllri blaðamennsku. Það segir sitt um ástandið að jafnvel ef að vondur ritstjóri hverfur á braut þá býst maður ekki við að neitt batni.

Á jaðrinum

Og ég hef sjálfur komið að ýmsum tilraunum til þess að bæta ástandið – tilraunum sem mistókust. Við reyndum nokkur að koma Vikublaðinu Krítík í heiminn og ég reyndi að reisa við gömlu góðu Kistuna – og hún komst aftur á lappirnir í smá tíma. Hvorugt gekk þó á endanum – og ég tek alveg á mig að við öll sem komum að þessu gerðum helling af mistökum. En það breytir því ekki að stærsta ástæða þess að þessir miðlar náðu ekki flugi var einfaldlega sú að þeir fengu ekki til þess nauðsynlegt fjármagn. Sama á við um aðra miðla sem hafa reynt svipaða hluti – svo sem Dagblaðið Nei. og Skástrik – og þá sem enn tóra, miðla á borð við Kjarnann, Starafugl, Reykvélina og Klapptré, ég skal alveg viðurkenna að af biturri reynslu er ég ekkert alltof bjartsýnn á framtíð þeirra. Enda allir reknir af vanefnum – Starafugl veit ég algjörlega í sjálfboðastarfi. En þarna er þó stór hluti þess lífs sem þó er í menningarmiðlun þessa lands – sem dæmi þá mætti blaðamaður frá bæði Starafugli og Klapptré til þess að fjalla um heimildamyndahátíðina Skjaldborg núna í vor – en enginn frá stóru miðlunum. Þeir létu sér símtækin og fréttatilkynningarnar duga.

En allir þessir miðlar eru á jaðrinum. Þeir verða seint þungamiðjan í umræðunni nema þeir fái til þess fjármagn og mannskap – ef það eru frábærar greinar á þessum miðlum deila þeim í mesta lagi tugir á Facebook – ef þær eru á Vísi deila þeim mögulega þúsundir. Ég tek fram að það er frábært að það séu til góðir jaðarmiðlar – en það er til merkis um helsjúkt samfélag ef ástæðan er aðallega sú hversu ónýtir stóru miðlarnir séu.

Það er helst að á Rás 1 hafi dafnað alvöru menningarumræða og alvöru þjóðfélagsrýni – annars staðar á stærstu miðlunum má auðvitað finna dæmi um slíkt, en það er fátt í umhverfi þeirra sem hvetur til þess og stundum finnst manni eins og blaðamenn sem slíkt reyna séu oftast fyrstir til að fara, enda ýtir allt umhverfið undir meðalmennsku – sem er iðullega afsökuð með veigðaryrðum á borð við hraða, fjölda smella og óljósum og órökstuddum hugmyndum um hvað lesendur vilji.

Það lifir einfaldlega ekkert krítískt á þessu landi.  Það er nóg af góðu og eldkláru fólki, en það hefur fæst almennilegan vettvang til þess að njóta sín. Og ég meina þetta í alvörunni: landið  er stútfullt af hæfileikum. Djóklaust. Við erum hins vegar ekkert einstök með það. Það er hæfileikafólk út um allan heim. Það sem skiptir máli er að það sé hlúð að þessum hæfileikum og það séu tækifæri til þess að láta þá blómstra, með öðrum orðum að fólk eigi möguleika til þess að vinna við það sem það sem það langar til, í landi þar sem vinna snýst ekki bara um launatékkann (enda sé sæmilega tryggt að hann dugi til þess að lifa mannsæmandi lífi) heldur við það að skapa eitthvað sem skiptir mann máli. Því einungis þá er einhver von til þess að það skipti aðra máli líka.

Auðvitað er þetta sjálfhverfur pistill. Mig langar að skrifa, mig langar að vinna við að skrifa og með deyjandi fjölmiðlum og hækkandi virðisaukaskatti á bækur þá fækkar möguleikunum til þess ört. En ég er ekkert einn í þessari stöðu og þetta á ekkert bara við um hinar skrifandi stéttir. Og ónýtir fjölmiðlar geta því miður oft leitt af sér ónýta þjóð. Fjölmiðlar eru umræðutorg þar sem upplýsingar og skoðanir eiga að fá að njóta sín – en þessa dagana virðist markaðstorgið hafa tekið þá yfir að mestu – ef þú vilt ekki kaupa pylsu af fyrirtækinu sem var að kaupa dagblaðið þitt þá áttu ekkert með að rífa kjaft.

En þjóð sem fær ekki að hugsa saman, fær ekki að ræða saman – hún tekur vondar ákvarðanir. Og þegar maður er hluti af þjóð sem alltaf tekur vondar ákvarðanir þá fyllist maður vonleysi. Því raddir sem skipta máli heyrast ekki. Maður getur öskrað sig hásan eða skrifað frá sér allt blek en það öskur verður ávallt þaggað niður af peningaprentsvertunni sem er búið að kaupa allar prentvélarnar. Jafnvel þótt fæstir þessara peninga hafi nokkurn tímann verið prentaðir – þeir eru skáldskaparlistin sem verður ekki hækkun virðisaukaskatts að bráð, vondur rafrænn skáldskapur sem við erum pikkföst í.

Ég viðurkenni að ég skyldi ekki hugsunarháttinn á bak við það að ráða Davíð á Moggann á sínum tíma. Ég sá fyrir mér færri áskrifendur og síminnkandi trúverðugleika – og hafði fullkomlega rétt fyrir mér þar. En það sem ég áttaði mig ekki á strax var að eigendunum var sama um það – þeir vildu bara þjóð sem hugsaði ekki um öll myrkraverkin þeirra. Nákvæmlega eins og eigendur ýmissra annarra fjölmiðla nota þá til þess að hylja eigin skömm. Því þótt þeir geti ekki fengið þjóð til þess að hætta að hugsa þá geta þeir fengið hana til að hætta að hugsa saman. Komið allri óæskilegri hugsun rækilega fyrir á jaðrinum, utan almenningstorga.

Og það er einmitt við svona aðstæður sem virkilega vondar ríkisstjórnir eru kosnar til valda – minna en fimm árum eftir að stefna þeirra hafði sett heila þjóð á hausinn.

Auðvitað getum við gert eitthvað. En við virðumst ekki vita lengur hvað þetta eitthvað er. Þetta er þjóð þar sem mótmæli duga ekki lengur – þar sem þau daga aðeins uppi. Man yfir höfuð einhver eftir mótmælunum í vor? Þau lognuðust út af – ekki bara út af því ríkisstjórnin keypti sér gálgafrest með því að fresta ákvörðunum um ESB, heldur ekki síður út af því að aðrir andstæðingar ríkisstjórnarinnar sáu ekki tækifærið og tókst ekki að víkka og breikka mótmælin, tryggja að þessi mótmæli væru líka gegn öllu hinu óréttlætinu, gegn niðurfellingu á veiðigjaldi, gegn misskiptingunni, gegn arðráninu, gegn aðför að Seðlabankanum, gegn því að fólk hefði varla efni á þaki yfir höfuðið.

Við byrjuðum á einhverju stórkostlegu veturinn 2008-9. Fólk er ennþá að tala um það hérna á meginlandinu, þau halda að við höfum klárað þetta. Jafnvel með reisn. En það gerðum við svo sannarlega ekki. Það verða bráðum sex ár síðan Haarde bað Guð að blessa Ísland. En Guð reddar okkur ekki í þetta skiptið, við verðum að berjast sjálf í fúlustu alvöru fyrir nýrra og skárra Íslandi. Við þurfum að finna vonina einhvers staðar aftur. Eða finna bara nýtt land og halda skárra partí þar.

Ásgeir H Ingólfsson