Albaníubrandarinn
Posted: January 4, 2015 Filed under: Uncategorized Leave a commentMér þykir afskaplega vænt um Albaníu og þess vegna leiðist mér óskaplega þegar Íslendingar nota landið sem ódýrt pönslæn í hinni endalausu hugmyndafræðilegri baráttu vinstri og hægri. Sérstaklega út af því hversu illa sú barátta hefur leikið Albaníu. Landið var með eina allra verstu kommúnistastjórn sem þekkst hefur í Evrópu í hálfa öld – eftir það tók við einhver mesti brjálæðis kapítalismi sem sést hefur í Evrópu í tíu ár. Albanir vissu einfaldlega voða lítið hvernig kapítalismi virkaði og vissu heldur ekki almennilega um alla gallana – og þar af leiðandi leyfðu þeir kapítalismanum að vera óheftum um stund. Með skelfilegum afleiðingum.
En þeir hafa verið að ná sér aftur á strik upp úr aldamótum. Þeir eru ennþá ósköp klaufalegir kapítalistar og það er hægt að finna ýmislegt kyndugt þar eins og fæðingarpakkana sem Ásdís Halla talar um. Þeir eru líka klaufalegir kapítalistar í þeim skilningi að þeir eru ekkert rosalega góðir að búa til peninga – það er enginn túrismi þarna svo heitið geti en það þyrfti ekki nema 2-3 sæmilega PR fulltrúa til að gjörbreyta því. Sem væri gott fyrir efnahaginn – að minnsta kosti til að byrja með – en væri svo bæði gott og slæmt fyrir þjóðina, eins og við þekkjum best sjálf eftir túristasprengjuna hérlendis. Það er frábært að fá allt þetta fólk, því fleiri útlenskar manneskjur því betra. Gallinn er bara allar þessar lundabúðir sem fylla miðbæinn og óðahækkun á leigumarkaði, allt gallar í boði íslenska kapítalismans sem Ásdísi Höllu finnst ekki nógu mikill.
En aftur að Albaníu. Albanirnir sem ég þekki eru ofboðslega gott fólk og alls ekki vitlaust þótt það hafi allt öðruvísi reynslu af heimunum en flestar þjóðir í kringum þá (enda eitt einangraðasta ríki Evrópu hálfa tuttugustu öldina og enn í raun félagslega einangrað um margt). Örlítið feimnari við heiminn en veraldarvanir nágrannar þeirra en um leið forvitnir um þessa fáu gesti sem rata til þeirra. En sú forvitni er aldrei uppáþrengjandi eða neikvæð.
Og þegar þeir fara að læra að fóta sig aftur í heiminum eftir allt það tráma sem 20 öldin var þeim gæti vel skeð að brandararnir verði á okkar kostnað, ekki þeirra.
Ásgeir H Ingólfsson
E.S.: Ég skrifa þennan pistil kannski aftur seinna. Hann var skrifaður núna af gefnu tilefni. En mig langar að skrifa lengri og betri pistil þegar ég veit meira um Albaníu, af því tvær heimsóknir og það að lesa sér örlítið til þýðir ekki að maður skilji þjóð (það annars óskiljanlega hugtak).
En kannski skrifa ég ekkert meira á endanum, minnugur sorglegasta en sannasta spakmælis sem ég hef heyrt: „Sá sem eyðir viku í Kína skrifar bók, sá sem eyðir mánuði í Kína skrifar smásögu og sá sem eyðir ári í Kína skrifar ljóð. Sá sem býr þar í áratug skrifar hins vegar ekki neitt.“ En það væri forvitnilegt að vita hversu mikið Ásrún Halla hyggst skrifa um Albaníu.
Recent Comments