Berbrjósta á Kaffibarnum

101 Reykjavík

Ég las í gær ágætan pistil í Kvennablaðinu eftir ritstýruna Steinunni Ólínu um brjóstabyltinguna. Ég segi ágætur þrátt fyrir að ég hafi verið afskaplega ósammála niðurstöðunni – enda er niðurstaðan fengin út frá hennar eigin persónulegu reynslu og hennar kynslóðar – sem er ekkert endilega sú sama og persónuleg reynsla og upplifun þeirrar kynslóðar sem nú er í menntaskólum og býr við töluvert annan veruleika en fyrir nokkrum áratugum – þótt við hin eldri getum oft verið dálítið blind á þann veruleika, rétt eins og okkar foreldrar gátu sum verið blind á okkar veruleika. Það er ekki endilega foreldrunum að kenna – það gildir einfaldlega hið fornkveðna; you had to be there.

En mér finnst pistillinn þrátt fyrir allt ágætur vegna þess að hann inniheldur kjarkaða og merkilega persónulega frásögn:

„Ég flutti að heiman tæplega fimmtán ára gömul, allt allt of snemma. Hafnaði frekara uppeldi með frekju, því miður. Ég hóf mína druslugöngu stuttu síðar. Ég var lauslát, beraði á mér brjóstin ef mér svo sýndist, dansaði iðulega ber að ofan á Kaffibarnum, labbaði Bankastrætið með vinkonu minni aðeins klædd frakka og flassaði framan í bíla og stundaði ‘frelsandi’ áhættuhegðun af bestu skúffu.
Við þessa framkomu mína var aldrei gerð nein athugasemd. Það reyndi enginn að koma böndum á þessa ungu konu. Hvar var hið íslenska Kabúl þá? Það var enginn sem hlutgerði mig nema ég sjálf.
En varð þetta til þess að valdefla mig?
Nei, síður en svo, því þrátt fyrir þessa ‘frelsandi’ hegðun mína varð þetta til þess að rúmlega þrítug stóð ég uppi með skekkta sjálfsmynd, ónýtt sjálfstraust og lága sjálfsvirðingu. Ég ein bar ábyrgð á því. Ég hafði komið fram við sjálfa mig af virðingarleysi, farið illa með mig.
Þar á ofan hafði ég lent í miður skemmtilegum uppákomum, orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi sem ég bar auðvitað ekki nokkra ábyrgð á enda getur maður ALDREI – hvort sem maður er klæddur í kufl eða kjól – varist því að lenda í höndunum á drullusokkum. En maður getur reynt að passa sig.“

Nú grunar mig að hin fimmtán ára Steinunn hafi ekki verið neitt vitlaus. Mig grunar að hún hafi verið að gera uppreisn gegn einhverju sem var raunverulega til staðar í þjóðfélaginu – þótt þessi uppreisn hafi ekki verið barin niður.

En mig langar samt aðallega að benda á eitt: það eru örugglega karlar sem hafa staðið uppi með skekkta sjálfsmynd eftir áratugarlangt lauslæti. Sérstaklega ef því fylgja einhvers konar svik og/eða ömurleg framkoma við sjálfa sig og aðra. Það eru líka karlar sem hafa orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi. En mig grunar að þeir séu í báðum tilfellum töluvert færri. Af þeirri einföldu ástæðu að það fylgir því miklu síður félagsleg útskúfun eða druslustimpill að vera lauslátur karlmaður sem finnst gaman að vera ber að ofan. Það er mun ólíklegra að fólk hugsi um karlmann sem er ber að ofan að hann sé „að biðja um það“ – það er einmitt miklu sjaldgæfara að lauslæti eða skyrtuleysi karlmanna sé sett í beint samhengi við að þeir séu beittir kynferðislegu ofbeldi.

Ég er nefnilega alveg sammála Steinunni með að burtséð frá allri hennar hegðun þá bar hún ekki nokkra ábyrgð á því kynferðislega ofbeldi sem hún varð fyrir – enda er ofbeldi ætíð á ábyrgð þess sem beitir því. Hins vegar er ég ansi hræddur um að einhver karlremban hafi hugsað að þetta ætti nú ekki að koma á óvart, enda hafi hún iðullega verið ber að ofan á Kaffibarnum.

Þetta er falskt orsakasamhengi og leiðir af sér bæði beinar og óbeinar réttlætingar á ofbeldi. Og sem betur fer er búið að mótmæla því. Vegna þess að þær menntaskólastelpur sem mættu berar að ofan í skólann í vikunni voru ekki bara að þessu fyrir sig sjálfar – þær voru líka að þessu til að sýna öllum kynsystrum sínum stuðning. Freethenipple þýðir alls konar – en meðal annars þetta: ef þú dansaðir ber að ofan á Kaffibarnum í gamla daga þá var það allt í lagi. Það gerir þig ekki að verri manneskju og réttlætir ekki það sem einhverjir drullusokkar gerðu við þig.

Ásgeir H Ingólfsson