Stolt

 

Mótmæli2015

Frá mótmælum í maí 2015. Það eru fleiri núna, miklu fleiri.

Eitt af því sem ég skil illa eru allir þeir landar mínir sem eru sárir og tala jafnvel um skömm eftir Panamaskjala-Kastljós gærkvöldsins.

Ég á nefnilega oftast erfitt með að vera stoltur af þjóð sem ítrekað velur sér spillta og vanhæfa stjórnmálamenn til forystu og sem iðullega ræður fólk í vinnu byggt á frændhygli, kunningsskap og flokkskírteinum frekar en hæfileikum.

En þegar þessi þjóð horfði loksins í augu við eigin flónsku og gerði eitthvað í hlutunum – þá fann ég loks fyrir einhverju smá stolti yfir því að vera Íslendingur.

Það var veturinn 2008-9 og þessi tilfinning entist því miður ekki lengi. En nú bærir þetta þjóðarstolt aðeins á sér aftur – fyrst út af þeim þrautseigu blaðamönnum sem hafa unnið þrekvirki á meðan flest er gert til að erfiða þeim lífið. Svo núna í kvöld vegna þjóðarinnar sem mætti í tugþúsundatali og mótmælti.

Núna sit ég í nýbyrjuðu meginlandsvori en langar samt í vorið heima, því það er bara eitt sem er betra en þegar náttúran byrjar að vakna eftir vetrardvalann: þegar fólkið vaknar.

Ásgeir H Ingólfsson