Áramótabréfið 2016
Posted: December 31, 2016 Filed under: Uncategorized Leave a comment
Úlfaldinn Bjólfaldi
Árið byrjaði á götu Čapek-bræðra þar sem syngjandi sígarettuboxið minntist Omars Shariff með því að spila músíkina úr Doctor Zhivago. Áramótamorgninum fylgdi svo fyrsti snjór þessa tékkneska vetrar – ég gaf öndunum illa sofinn afgangsbrauðið sem ég tók með mér af veitingastað við Karlsbrúna þar sem ég hafði borðað fyrstu máltíð ársins.
Janúar fór svo í að horfa á bíómyndir fyrir Stockfish og skrifa bíótexta – og einhvers staðar þarna á milli dó Bowie og tónninn var sleginn fyrir þetta ár. Nema það hafi verið sígarettuboxið sem sló tóninn?
Febrúar var svo alvöru bíómánuður – engir screenerar, bara hellingur af bíómyndum og viðtölum á Berlinale – og svo egypsk, kósövsk og portúgölsk partí sem maður náði að laumast í á milli mynda – að ógleymdum upplestri á viskýbarnum eina eftir hátíð. Berlín var líka smá tryllingur og örvænting – ekki mín samt – ég var bara að lægja öldur.
Vikan eftir Berlinale fór svo í að ná Berlinale-kvefinu úr mér (sem ritstjóri Cineuropa varaði mig við á fyrsta degi hátíðar; „hérna kvefast allir“) en mars og apríl voru dálítið Kunderskir – Lífið er annars staðar hefði verið góður titill, allur hasarinn var heima á Íslandi og maður var orðinn þreyttur á Tábor – já, og skítblankur að leita sér að verkefnum. Var duglegri að finna afsökun fyrir að fara til Prag – smábæir eru ágætir í smátíma en of lengi og maður verður skrítinn í hausnum.
En vorið var fallegt – einhvern apríldaginn endaði þetta í stílabókinni:
Pragverska vorið
Tvær þýskar stelpur í blómapylsum sofa við hliðina á mér. Moldáin er full af bátum og það spilar einhver á gítar á bak við mig. Ég sé ekki gítarleikarann þegar ég sný mér við, bara hjón sem eru að borða franskar og spölkorn í burtu er stelpa að láta ána dáleiða sig. Ég þekki ekkert af þessu fólki, en við eigum sólina og þennan dag saman.
Við erum á Kampa-eyju, mitt á milli Karlsbrúnnar og Manesbrúnnar, og ég er með Glötuðu snillingana hans Heinesens í bakpokanum. Þorgeir þýddi hana, Þorgeir sem einu sinni bjó hér þegar ég var ekki enn fæddur, Þorgeir sem lá örugglega einhvern tímann hér og virti fyrir sér mannlíf sem er hægt og rólega að hverfa, fólk sem lifði aðra tíma og er núna að lifa ellina, ef það lifir þá enn. Kannski kom hann auga á Hedu hér, hver veit. Heda er líka í bakpokanum mínum, hún er farin en skyldi eftir bækur um borgina sína fyrir mig, um þessa tuttugustu öld þegar alræðisstjórn réði flestu en átti samt sínar heitu sumarnætur þegar enginn vildi fara heim og fólk naut þess að vera úti, því jafnvel alræðisstjórnir geta ekki bannað sólina.
Rétt hjá stelpunni sem horfir á ána stendur svanur og snyrtir sig á meðan þrjár dúfur labba fram hjá og virða fyrir sér mannlífið. Og þótt ég hafi fæðst annars staðar og finnist ég oft skilja þessa dularfullu borg illa, með alla sína ranghala og slavnesku hasek, þá er þetta samt á einhvern dularfullan hátt borgin mín.
Sem endaði auðvitað á því að ég flutti í borgina aftur. Maí fór í íbúðaleit, valið stóð á endanum á milli Americká og Uruguayská – sem hittast á horninu – og við völdum Uruguayská út af því hún var með húsgögnum, en samt í alvörunni aðallega út af fótboltanördisma og anti-imperialisma. Svo var auðvitað enginn friður fyrir blaðamönnum þennan mánuðinn – ég lenti harkalega í tékkneskum virkum í athugasemdum (sem voru mögulega að djóka einhverjir – Google Translate er ekki alveg með fínustu blæbrigðin á hreinu) eftir að Martina tók viðtal við mig fyrir elsta dagblað Tékklands. Næst var það Druslubókabloggið þar sem ég gat loksins rantað aðeins meira um Framtíðina. Svo hitti ég Helenu sem talaði frábæra íslensku (og tók viðtal við hana seinna um haustið), Jón Kalman og Sjón sem sagði mér sögur af absinti og Sykurmolum í fyrstu Prag-ferðinni rétt eftir byltingu.

Jórdan var í bakgarðinum.
Svo fluttum við. Ég man síðasta daginn í Tábor – þegar við skúruðum og skiluðum lyklunum:
Hvernig kveðja skal bæ: skila lyklunum, taka einn 3,5 kílómetra lokasundsprett í Jórdan-áni og koma til baka þegar regnboginn sest á vatnið, einhver siglir á kajak fyrir framan þig og einhvers staðar í skógarþykkninu heyrist í flautu áður en þú kemur í land þar sem gaur með sólgleraugu og tvær veiðistangir hefur tekið að sér að passa fötin manns. Na shledanou Tábor – ég kem aftur til að heimsækja Jórdan og Havana og Baobab og Café Aux og alla gosbrunnana sjö!
Núna var það hins vegar Prag, áðurnefnd Uruguayská-gata – í Vínekruhverfinu, rétt hjá Friðartorgi og Ludmilu-kirkju, kortér frá miðbænum og fimm mínútur frá frábærasta almenningsgarði í heimi. Við erum upp á fimmtu hæð – eða þriðju hæð, út af því það er jarðhæð og messanín – sem er samt ekkert alvöru messanín. Jane Bond er fyrir utan gluggann, sporvagnarnir eiga það til að vera hávaðasamir en maður venst þeim – og neðst er búð sem er opin allan sólarhringinn og er oftast stútfull af löggum að kaupa kleinuhringi.

Hitti líka þennan hressa páfugl í júní, í hallargarðinum.
Júní fór svo aðallega í fótbolta, að skrifa um hann fyrir Fréttatímann og horfa á leikina og spila fótbolta, sem varð til þess að ég missti af fyrri hálfleik Ungverja-leiksins – en græddi þennan status í staðinn:
Þegar ég gekk framhjá Ludmílu-kirkjunni í gær til að ná sporvagni þá sá ég um tuttugu manna hóp með tékkneska fána og mann að messa yfir þeim í kirkjutröppunum. Ég vonaði að þetta væri eitthvað fótboltatengt – en þar sem Tékkarnir höfðu spilað daginn áður var ég ekki bjartsýnn. Þegar ég kom nær sá ég nokkra and-íslamska fána inná milli og skildi strax að þetta var það sem ég óttaðist, einhverjir rasistavitleysingar. Ég hafði hins vegar ekki tíma til að stoppa því ég þurfti að taka tramminn í fótbolta, þar sem einhver 5-6 þjóðerni komu saman og tékknesku strákarnir sem fengu að spila með okkur gátu likast til rakið uppruna sinn til þriggja mismunandi heimsálfa. Þegar ég kom svo til baka voru þrjár stelpur að dansa nútímadans og það voru svona tíu sinnum fleiri að fylgjast með þeim en höfðu hlustað á rasistann á kirkjutröppunum.
Jú, svo var ég plataður í skottúr til Parísar að sjá Austurríkis-leikinn eftir að ég hafði kosið Andra Snæ í ísbúðinni – mér tókst að gera skiptidíl á ljóðabókum og miðanum. Leikdagurinn sjálfur var sveittur – og þótt ég væri með Magga og Palla og hafi hitt slatta af fólki sem ég kannaðist við þá var samt skrítið að vera þarna, það var stútfullt af Íslendingum en þetta var ættbálkur sem ég kannaðist ekkert mikið við, þetta var Smáralindar-Ísland og svo við nokkrar miðbæjarrottur með laumufótboltaáhuga sem þvældumst með. En djöfull gaman samt. Eftir leik hittum við svo frábær austurrísk eldri hjón á samlokustað, hann hafði spilað í austurrísku 2 deildinni og var merkilega sáttur við lífið eftir að hafa tapað á móti dvergþjóðinni okkar.
Annars fór ég nærri því í nám til Parísar í gamla daga – þetta var á milli Parísar og Prag og endanleg ákvörðun var tekin á djammi í Sjallanum. Síðast þegar ég var í París (tvisvar í kringum aldamótin) dáðist ég að borginni, svona á borg að vera, ekki svona vitleysa eins og í Reykjavík. Núna fannst mér París alltof mikil bílaborg og ekki nógu skynsamlega skipulögð, svona fer Prag-dvölin með mann. Það dugar ekki lengur að vera sniðugri en Reykjavík. Hún er nú samt ennþá falleg og Shakespeare & co. er enn skemmtileg þótt hún sé orðin alltof umsetin.
Ég náði rétt náði svo aftur til Prag til að taka á móti Stjána, Sollu og Ara og drífa þau á næsta sport-pöbb til að sjá skyldusigurinn gegn Englandi – og ensku boltabullurnar voru heiðursmenn miklir og fengu okkur til að kvitta á fánann sinn eftir leik.

Þessi mynd er miklu betri á mute.
Fjórða árið í röð byrjaði júlí svo í Karlovy Vary (ágætis huggun eftir að hafa misst af Skjaldborg eftir fimm frábær ár í röð). Allir gömlu vinirnir heilsuðu mér á sama hátt; „pant horfa á Frakklandsleikinn með þér!“ Nema Harri, hann hatar fótbolta. Ísland tapaði víst fyrir verðandi Evrópumeisturum (ég er að lifa í núi dagbókarinnar þegar helvítis fiðrildin voru ekki búinn að tryggja Portúgal Evróputitilinn) en það var hægt að hugga sig í bíósalnum og drekka bjór með finnsk/ný-sjálenska KVIFF-genginu mínu þess á milli, fara í blaðamannapartí þar sem kviknaði í grillinu og lesa ljóð með kviðmági Cary Grant. Þar heyrði ég líka bestu sögu ársins, en hún er ekki fyrir blogg heldur næsta skiptið sem við fáum okkur bjór saman. Svo fór ég á tónleika með Sixto – já, sjálfum Sykurmannninum. Hann er orðinn gamall og rámur en samt betri en öll nýbökuð nóbelsskáld!

Mynd: Haukur Már
Ágúst byrjaði á því að skemmtilegasta fólkið kom í heimsókn (sjá mynd), svo varð ég gamall, horfði á Stranger Things og skrapp til Vínarborgar og lenti í aukahlutverki í besta leikriti ársins þegar ég labbaði inná bar þar sem nígerískur barþjónn og nígerískur kúnni útskýrðu fyrir mér nígeríska pólitík – en voru í raun aðallega að rífast um hana innbyrðis. Svo lenti ég á einhverjum smábömmer út af stelpu – en það lagaðist allt þegar ég fór á pöbb og sat þar alltof lengi af því þau barþjónninn að spila Leonard Cohen og Cohen skyldi allt. Ég sakna hans ennþá.

Class of ’15 – eða einn þriðji af honum.
September byrjaði ég svo á að sjá Casablanca í bíó í fyrsta skipti og endaði með að Southampton-ritlistarvinir komu í frábæra og óvænta heimsókn. Inná milli fórum við svo í helgarferð til Plzen:
Helgarferðin til Plzen endaði með hatrömmum átökum mínum við geitung sem ásældist eplasafann minn. Það slapp bara annar okkar lifandi frá þeim átökum, hinn var stunginn í hnakkann.
Annars var þetta helgarlöng kosningasmölun – við Sveinbjörn vorum ferjaðir á bjórhátíð smábrugghúsa til að kjósa Pivo „πίβο“ Microbrewery, frábæran kýpverskan bjór sem vinir Ilonu og Kostas mættu með – og svo kom auðvitað í ljós að einn bruggarinn hafði spilað blak við frændur mína Kristján & Hafsteinn – en valdi svo bruggið fram yfir blakið.
Já, og ef það fór fram hjá einhverjum þá hitti ég úlfaldann Bjórfalda sem var ekki síður hrifinn af eplum en helvítis geitungurinn – en hann fann sér bara eplatré til að borða af.
Október byrjaði með epískri eitís-laga bloggseríu og endaði með asnalegum kosningum þar sem við kusum stjórnarkreppu sem virðist ætla að enda með vondri ríkisstjórn.

Listaverkið “bókmenntafræðingur reynir að skilja röntgenmynd”
Þetta verður alltaf styttra, haustið er of nálægt, þetta rennur saman í einhvern hversdag sem er ekki búið að framkalla – en nóvember endaði á fyrsta almennilega beinbrotinu mínu (bátsbeinið sem ég braut þegar ég var sextán ára var eiginlega of lítið til að teljast með) sem þýddi að fyrsta vikan í desember leið í móki þar sem ég ýmist gat ekki sofið eða gerði ekki annað en að sofa, vika tvö var ég orðinn svona 30 prósent vinnufær og gat altént aftur hamrað á lyklaborð með báðum höndum og í þriðju viku skakklappaðist ég einhentur með tuttugu kílóa tösku frá Prag til Berlínar til Keflavíkur. Það var orðið meira en ár síðan ég kom heim síðast – og meira en ár í mið-Evrópu þýðir að maður gleymir hvernig rok er og heldur að það sé bara minnsta mál í heimi að vera bara í annarri jakkaerminni út af því hin hendin er í fatla. En vetrarjakkinn fauk auðvitað upp í vindinn þegar ég steig út úr flugstöðinni og þá var ég kominn heim. Ég sagði í kjölfarið skilið við fatlann – maður er orðinn sæmilega fúnksjónal aftur þótt maður nái ekki að lyfta hendinni uppyfir öxl alveg strax – sem eyðilagði alveg íslensku sundlaugarplönin mín. En Ísland er ennþá ágætt – ef það væri ekki fyrir veðrið og verðið.

Lestarteinar undir smásjá
Og einhvern veginn svona var árið. Fyrir utan auðvitað hversdaginn, Fréttatímaskrif, þýðingar og leit af fleiri verkefnum, göngutúrum um borgina og draumórum um framtíðina, Facebook-hangsi og leit að fleiri verkefnum. Það er fínt úti en ég þarf fleiri verkefni svo ég endi ekki bara heima að vinna í áburðarverksmiðjunni, þið þekkið þetta.
Svo kemur 2017 og þá á auðvitað að horfa á fleiri bíómyndir, lesa fleiri bækur og skrifa fleiri orð. Ferðast meira, vera minna blankur og koma einhvern veginn í veg fyrir að Cave og Waits og allir hinir drepist.
Já, og koma mér upp meira drama. Ég þurfti að ritskoða alltof lítið út úr þessum pistli – árið 2017 verður svo dramatískt að næsti áramótaannáll verður ekkert nema ritskoðuð orð.
ykkar,
Ásgeir
Recent Comments