Strúts-syndrómið

PalestínaVeggurNýlega deildi Stefán Pálsson hugmyndum Guðmundar Svanssonar um að hunsa að stærstum hluta hryðjuverkamenn í fréttum með þessum orðum:

„Láttu eins og þú takir ekki eftir þeim, þá missa þau áhugann og hætta að stríða þér. – Þetta eru ráðin sem við gefum börnunum okkar þegar þau lenda í einelti. Það er erfitt og sárt að fylgja þessum ráðleggingum en þó áhrifaríkt. Svansson hittir naglann á höfuðið.“

Og svo ég orði það nú bara pent: þetta er djöfulsins andskotans vitleysa. Það get ég vottað út frá bæði eigin reynslu og annarra af einelti. Þetta hefur samt örugglega virkað einhvers staðar einhvern tímann – einelti er flókið og fjölbreytt – en jafnvel ef það virkar þá markerar það okkur langt fram á fullorðinsár hvernig við bregðumst við einelti sem börn; það er ekkert sjálfsagt mál að byrja allt í einu að rétta úr bakinu þegar þú ert kominn út á vinnumarkaðinn eða í nýjan skóla eða einhverjar aðrar aðstæður.

Það hryggir mig líka ef þetta eru skástu ráð fullorðinna foreldra nú til dags – það bendir ekki til að mikið hafi unnist í baráttunni gegn einelti í skólum landsins, en ég vona að það sé rangt.

Að snúa andlitinu frá heiminum

Þetta með hryðjuverkin er allt annað mál og lútir öðrum lögmálum – en ég er nú líka frekar ósammála þessum orðum Guðmundar sem vísað var í:

„Mér finnst að fjölmiðlar ættu að fjalla um hryðjuverkaárásir með svipuðum hætti og þeir fjalla um umferðarslys. Greina frá öllu þessu helsta en algerlega að sleppa því að fara í 24/7 gírinn og stríðsfyrirsagnirnar. Þeir sem fremja árásirnar eru í stríði, þetta er taktík, og markmiðið með henni er fyrst og fremst fjölmiðlaumfjöllunin. Ef þú lætur eins og þú sjáir þá ekki, þá missir þetta marks.“

Ég er sammála því að það væri gott að sleppa við senseisjónalismann – en hættan er að ef við lokum á hann þá lokum við líka á alvöru greiningu á atburðunum sem og þjóðfélaginu í heild, ef við þöggum eða takmörkum umfjöllun um einhverja þætti þjóðfélagsins getum við aldrei rætt saman um þetta sama þjóðfélag af neinum heilindum.

Svo getum við bara skoðað hvernig þetta hefur virkað. Skánaði stríðið í Sýrlandi eitthvað þótt vestrænir fjölmiðlar hafi sýnt því stigminnkandi áhuga? Fréttir síðustu viku sýndu vel að svo var ekki. Guðmundur minnist á að Ísraelar hafi gert þetta þegar hryðjuverk voru hvað algengust – og svo kemur svigi: (áður en allir veggirnir risu).

Það bendir ekki beinlínis til að þetta sé besta aðferðin ef hún endar á að byggðir séu aðskilnaðarveggir. Og hvað sem segja má um viðbrögð fjölmiðla þá eru viðbrögð yfirvalda ósjaldan miklu verri. Veggir og hert öryggisgæsla, meira lögregluríki – sem alltof gerir ekkert raunverulega til að minnka hættuna á hryðjuverkum en þeim mun  meira til að valda borgurunum ama og í verstu tilfellunum niðurlægingu. Við hvítu Vesturlandabúar upplifum að vísu sárasjaldan niðurlæginguna – hún er oftast ætluð öðrum.

En svo er náttúrulega akkúrat þessi aðferð sú sem vinstrið hefur notað eftir að kalda stríðinu lauk,  vinstrimenn hafa leyft hægrimönnum að skilgreina heiminn – og hafa meira að segja leyft þeim að gera það áfram eftir að ein harkaleg efnahagskreppa sýndi fram á hversu skökk skilgreining hægrisins á heiminum var.

En höldum endilega áfram að fara með veggjum og svara ekki fyrir okkur. Þetta líður allt saman hjá, right?

Ásgeir H Ingólfsson