Áramótabréfið 2017
Posted: January 3, 2018 Filed under: Uncategorized Leave a comment
Afmælisrauðvínið. Þið verðið að lesa ágústkaflann til að vita meira.
Árið byrjaði á Akureyri og endaði langt í burtu frá Akureyri. Nýársnóttinn endaði í Vanabyggðinni að ræða við Villa Stebba um Ishtar, Howard the Duck og ryksögur.
Svo gerðist það snemma árs að Framtíðin fékk fínasta dóm hjá vestur-íslenska skáldinu Bill Valgardsson í Lögberg-Heimskringlu (já, ég blogga til að grobba). Hann sagði til dæmis:
„These are poems to make the reader think, to challenge the past, present, and future.“
„Joan of Arc is a recognizable figure from the past and the poem would be little more than a discourse on history if it weren‘t for the hoverboards. They make her us. They make her fate ours. The poem, given our troubled times – Brexit, the American election, Russian meddling, ISIS – is apt.“
„In „America“ he presents an image of America that is both accurate and terrifying.“
Merkilegt nokk átti ég svo eftir að vinna heilmikið með ljóðin seinna á árinu með öðrum Vestur-Íslendingi, en hann þekkti ég ekki þarna þegar árið var ungt.
Ég var samt eitthvað lítill í mér þarna í ársbyrjun, enda enn með hálfónýta hægri hönd. Það fer eitthvað skakkt í sálina á manni að geta ekki lyft báðum höndum upp fyrir axlir. En þetta lagaðist hægt og rólega, bara aðeins of hægt og rólega.
Fyrstu tvær vikur ársins voru heima, í gamla heima, Akureyri og Reykjavík, áður en ég fór heim til Prag. Það næstsíðasta sem ég gerði á Íslandi var að fara á Hjartasteins-frumsýninguna (sem endaði með þessari grein) og taka gott menningarblaðamannabjórspjall með kollega í kjölfarið. Það síðasta sem ég gerði var svo að spjalla í klukkutíma við Val Brynjar um ný-nasista – ef ég hefði ekki þurft að taka flugrútuna út á völl hefðum við örugglega talað um þá í tíu tíma og ég hefði endað með heila bók á upptökutækinu – en í staðinn látum við eina blaðagrein duga; Kvöldstund með nasista (Valur er samt ekki nasisti sko, svo það sé á hreinu, heldur maðurinn sem hann var að tala við fyrir langa langa löngu).

Ég stoppaði bara nógu lengi í Búdapest til að sofa í nokkra klukkutíma á hostelinu – og taka mynda af baðverðinum þar, auðvitað.
Janúar fór svo mest í að skrifa synopsa fyrir Stockfish og að borða villisvínakjöt í fyrsta skipti á ævinni. Það var kannski ekki alveg eins og í Ástríksbókunum, en samt svona nokkurn veginn. Þetta var kaldur janúarmánuður í Prag, gott ef hann sló ekki einhver met, þannig að það var ágætt að vera sem mest innivið.
Í febrúarbyrjun upplifði ég svo fallegan kynusla og tegundarusla í eftirfarandi senu á einu lókal kaffihúsinu (Kávarna Blatouch, mæli með því):
„Sat á kaffihúsi þegar 2 metra hár klæðskiptingur, vinkona hans og kolsvartur hundur koma inn. Hundurinn var mjög áhugasamur um alla gesti staðarins og eftir að hafa tekið ítarlegan rúnt og þefað vandlega af öllum þá stökk hann upp á bekkinn við hliðina á mér og heimtaði að ég klóraði honum á bak við eyrun og undir skoltunum í dágóða stund. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum og mér fannst eitthvað óvenjulegt við þennan hund, hann var meðalstór en hreyfði sig óvenju fínlega, með silkimjúkann feld og sýndi engin merki húsbóndahollustu. Svo fattaði ég það; rétt eins og karlinn sem átti hann var kona í alvörunni var hundurinn köttur í alvörunni.“
Berlinale og vordagar
Febrúar var svo Berlinale-mánuður að venju (tvö ár í röð er jú hefð!), skrifaði tvo pistla um hátíðina í Fréttatímann, þann fyrri um Trainspotting 2, Wolf Alice, Django Reinhardt og Marie Curie, þann seinni um Wolverine og Kaurismäki, tók viðtal tvo daga í röð við óskarstilnefnda leikstjóra og fer líklega að birta þau bráðum, enda myndirnar loksins á leiðinni til Íslands. Gisti í Mehringdamm, rétt hjá nokkrum bestu veitingastöðum Berlínar-borgar (halló Bergmann-borgarar, Mustafa-kebab og Pagode), hitti eitthvað af Berlínar-genginu og sá mínar lögbundnu 20 bíómyndir þrátt fyrir annir í öðrum verkefnum – en segi ykkur nánar frá þeim í bíóannálnum sem ég skrifa þegar ég er búinn með þetta.
En það var einhver harkþreyta komin í mig – þetta frílans getur verið lýjandi til lengdar, þannig að ég var eiginlega búinn að ákveða að finna mér eitthvað að gera heima um sumarið – gerast gastarbeiter í eigin landi. Það var ágætt að það var að mestu gengið í gegn þegar blaðið sem ég skrifaði fyrir fór á hausinn og þýðingarfyrirtækið sem ég hafði unnið fyrir lagði sjálft sig niður með að ganga inní annað þýðingarfyrirtæki, annars hefði ég örugglega fengið gott frílansarataugaáfall.
Og fyrir þau ykkar sem eruð að spá í því hvað ég er að gera hérna úti, þá svaraði ég því að einhverju leyti í viðtali í Stundinni snemma árs:
„Þegar ég flutti út haustið 2014 spilaði ástandið á leigumarkaði alveg inn í – en það var ekki aðalástæðan. Ástandið á vinnumarkaðnum var líklega stærri ástæða – það var svo sem nóg af vinnu, en lítið af spennandi vinnu. Hins vegar hugsaði ég þá að ég myndi taka 2–3 ár úti og sjá svo til hvort ég yrði áfram eða flytti aftur heim. Ég var aldrei ákveðinn að flytja heim eftir þessi tvö ár – en það var alltaf möguleiki.
Núna, tveimur og hálfu ári seinna, er staðan hins vegar sú að ég er að mörgu leyti jákvæðari fyrir því að flytja heim en áður – en það væri ökónómískt sjálfsmorð ef ég væri ekki búinn að tryggja mér vel launaða vinnu áður – bara kostnaðurinn við leigu á íbúð eða herbergi og tryggingar og fyrirframgreiðslur sem iðulega fylgja, fyrir utan alla hina dýrtíðina. Svo er maður náttúrlega kominn í annan efnahagslegan raunveruleika hérna úti, ég þyrfti skyndilega að margfalda allar mínar tekjur til að lifa af. Og úr fjarlægð eru þessar upphæðir fyrir sjálfsagða hluti – húsnæði og mat – einfaldlega klikkaðir.
Raunar er stutta svarið mitt við því hvernig mér finnist að koma til Íslands einfaldlega þetta: Ísland er fínt fyrir utan veðrið og verðið.
En auðvitað skipta aðrir hlutir máli líka. Ef það væru einhver nógu spennandi verkefni heima (já, Ísland verður alltaf heima – en Prag er það líka, allavega núna) gæti ég látið mig hafa dýrtíðina. En tækifæri á Íslandi eru alltaf háð „þörfum atvinnulífsins“. Þau þurfa alltaf að finna sér réttætingu í excel-skjali – eða þau þurfa að vera nógu þjóðmenningarleg til að fá bitling úr ríkiskassanum. Húsnæðisverð er bara birtingarmynd á þeim vanda að við höfum ekki drifkraftinn í það sem ætti að vera okkar forgangsverkefni – að skapa mannvænt samfélag á þessu landi.“
En auðvitað má ýmsu við þetta bæta, til dæmis því að ég fíla útlönd. Ég er samt ennþá að reyna að læra að eiga heima þar.

Fátt í veröldinni er fallegra en vel hannað tékkneskt götuskilti. Þetta vita meðlimir FB grúppunar Algjörlega óáhugaverðar götuheitaupplýsingar auðvitað.
Þessa síðustu vormánuði í Prag fyrir Íslandsútlegðina þá stofnaði ég þá merku Facebook-síðu Algjörlega óáhugaverðar götuheitaupplýsingar, sem ég þarf að verða duglegri að sinna á nýju ári. Hún snýst nefnilega dálítið um það að læra að eiga heima í útlöndum, að sigrast á hversdeginum sem tekur við þegar rútínan eltir mann uppi. Að vera áfram forvitni ferðamaðurinn með sæmilega glögg gestsaugu.
Svo fór Framtíðin aðeins að láta kræla á sér aftur. Fyrstu 4-5 mánuðina eftir að hún kom út haustið 2015 hafði ég reglulega verið að lesa upp úr henni á börum heimsins (altso Reykjavíkur, Akureyrar, Berlínar og Prag) – en svo leið rúmt ár án þess að ég tæki einn einasta upplestur (að því undanskildu að ég tók “Hamingjusama kjúklinginn” í matarboði á Bergþórugötu og ljóðabattlaði við aldinn handritshöfund í Karlovy Vary). Þangað til Félag íslenskra ofsamanna (altso, Íslands-áhugafélag Tékklands) fékk mig til að vera með klukkutíma prógramm fyrir þau, einhvers konar ljóðakabarett þar sem ég röfla á milli ljóða, allt á íslensku auðvitað – þannig að Ilona fékk að þýða þetta allt saman á akkorði. Skemmtilegt líka að lesa, án mikilla viðbragða, og horfa svo á þýðandann fá alla hlátrana og klappið. Enda eiga þeir það skilið, sérstaklega Ilona.
Tók svo svipað prógramm á Akureyrarvöku um sumarið þar sem ég var líka með upplestra í Lystigarðinum fyrir gamla félagsfræðikennara og fleira gott fólk. En tveimur dögum eftir upphaflega kabarettinn þá las ég á ljóðakvöldi á Soma bar (það voru engar samlokur í boði, þannig að ég reikna með að nafnið sé frekar vísun í Aldous Huxley en Sóma-samlokur) – og náði þessu galdramómenti, með ljóð sem maður hafði lesið margoft áður, þar sem maður fann að hlustendur náðu hverju orði og um leið enduruppgötvaði ég hvert einasta orð sjálfur.
Svo var – loksins, loksins! – rifist heiftarlega um unglingabækur þar sem Helgi Jónsson og 13 vondar ástæður komu við sögu. Pólitíkin kom hins vegar í veg fyrir að ég og Yuliya Samoilova gætum keppt um sigurlaunin í Evróvisjón, svona hefnist manni fyrir Krímskagaflakkið.

Vorboðarnir í rússnesku mafíunni kíktu í heimsókn.
Rétt áður en ég fór heim mættu svo Jón Bjarki, Haukur Már og Trausti (sem var að leggja af stað í massífa heimsreisu) og þar með hófst eitthvert svakalegasta skæruliðalistaverkefni síðari ára – sem er ekki hægt að segja frá í þessum annáli (það myndi líka að minnsta kosti tvöfalda hann í lengd) þar sem þetta er ennþá algjört hernaðarleyndarmál. En það mun breytast.
Svo dó hún Jóhanna Kristjónsdóttir í vor, það frábæra skáld og sú frábæra blaðakona. Þegar ég ritstýrði Torfinu var hún Jóhanna fyrsta manneskjan sem ég tók viðtal við. Við töluðum um Insjallah, bókina sem þá var nýkomin út, pældum í hver íslenska útgáfan af þeirri heimspeki gæti verið, við töluðum um að heyja að okkur orðum og ég man alltaf hvernig hún talaði um peningatré. Peningatré er tré sem maður vökvar til að geta látið drauma rætast, ekki drekagull sem maður liggur á. Og núna er ég að fara heim að vökva peningatréið og Jóhanna er farin eftir að hafa látið alls kyns drauma rætast, og líka hjálpað ótal arabískum börnum að gera það sama. Fyrir það ber að þakka, sem og fyrir öll hennar frábæru ljóð og ferðaskrif og hugrekki og lífsgleði.
Já, ég var að fara heim að vökva peningatréið. Fyrst kom ég samt við í Berlín í sólarhring, hitti mikið af góðu fólki og endaði að lokum á dansstað þar sem vinkona mín meiddist illa á hné – en heimtaði samt að halda áfram að dansa fram á morgun. Þannig að ég mætti á flugvöllinn eftir þriggja tíma svefn. Ég hafði gert boð á undan mér með þessum orðum:
„Flugmiði til Keflavíkur, tékk.
Sumarvinna á Mývatni, tékk.
Ekki láta ykkur samt detta í hug að ég sé fluttur aftur heim – þetta er bara langt vinnu-sumarfrís-stopp!“
Mývatn, stúdentsafmæli og bíóhátíðir
Ég kom heim til að vinna – og það var ekkert djók. 160 klukkutímar á fyrstu 16 dögunum, þar sem ég næturvarðaðist, skúraði og spúlaði við Jarðböðin í Mývatnssveit – áður en ég átti fyrsta vikufríið. Þessi vikufrí voru samt ekki mikil frí framan af, fyrst var það lögbundin Skjaldborgarferð vestur á Patreksfjörð sem má lesa um hérna, hérna og hérna – auk þess sem ég fann þessa búddista á Tálknafirði. Þá var það lögbundið stúdentsafmæli og loks lögbundin Karlovy Vary-ferð sem má lesa um hérna.
Inná milli var svo endalaus vinna, gervöll Týróla-fjölskyldan kom í heimsókn í lónið og fastagestirnir fóru að yrkja um mann kvæði og svo átti ég epískt afmæli á vakt, með góðum leynigestum og þessum fallega morgni:
„Einu sinni var næturvörður að koma heim af vakt og í staðinn fyrir að fara beint að sofa þá fór hann í hvítu skyrtuna og fékk sér eitt rauðvínsglas með svarta chílenska kettinum sem hafði komið yfir hálfan hnöttinn til að fagna afmælinu með téðum næturverði. Þeir skáluðu fyrir ástinni og lífinu og vináttunni og öllum vinum í nútíð og fortíð og framtíð, bæði þeim sem höfðu sent rafkveðjur og líka þeim sem voru einhvers staðar í netleysi Andesfjalla eða sumarfría og sendu bara hugsskeyti í staðinn. Þannig að aftur; skál fyrir ástinni og lífinu og vináttunni og takk fyrir allar kveðjurnar, komnar sem og ókomnar.“
Annars komst ég fljótlega að raun um að besta leiðin til að lifa þetta af var að blasta tónlist við skúringarnar og setja podcöst í eyrun þegar maður spúlaði (enda hátalarnir þá langt í burtu). Þarna hlustaði ég á Veru Illuga flytja Í ljósi sögunnar, S-Town og einhverja árganga af Lestinni og Víðsjá – og þetta gat stundum verið skemmtilega draugalegt. Orð og senur festust við staði og stundum var maður ekki með neitt í eyrunum en heyrði samt Veru Illuga tala um einhvern blóðugan fjöldamorðingja þegar maður var að skúra í sama horninu og maður heyrði af honum kvöldið áður.
En allir tímar þurfa sitt lag, öll sumur þurfa sinn sumarsmell – og þótt það væru margir til kallaðir þá átti Freddie lag sumarsins, lúmskasta verkamannaóðinn, um lífið annars staðar – þegar maður breiðir út vængina. Þetta er lag sumarsins, um það þegar við Sammi erum hættir að skúra og fljúgum í burtu í frelsið. Frelsið, maður, frelsið.
Akureyri-Reykjavík: örleikrit
Næstsíðasta frívikan eftir afmælið fór svo í ljóðaupplestur á Akureyrarvöku og svo Reykjavíkurferð að ná í dótið mitt í geymslu og ferma það í geymslu fyrir norðan. Fjórðu geymsluna á þessum rúmlega þremur árum síðan ég flúði land. Ég fékk bílinn hennar múttu lánaða og auglýsti á síðustu stundu laust far á Samferða til að dreifa bensínkostnaðinum. Nítján ára unglingspilt vantaði far og á leiðinni átti eftirfarandi örleikrit sér stað:
Farþegi: Hey, má ég sýna þér tattúið mitt?
Bílstjóri (skeptískur): Alveg eins.
Farþegi sýnir tattúið. Hakakross með einhverju torkennilegu krassi á neðanverðum fótlegg.
Farþegi: Þetta er til heiðurs Adolf Hitler. Hann er í miklu uppáhaldi (sýnir svo annað tattú á hendinni). Þetta er svo fyrir pabba, hann er dáinn.
Bílstjóri svarar aðspurður að hann sé ekkert sérlega hrifinn af fyrra húðflúrinu. Síðan er þögn í dálítinn tíma á meðan hlustað er á tónlist.
Ferþegi rífur síðar þögnina og stingur upp á að fara í leik; Hver er maðurinn? Bílstjóra lýst ágætlega á það, enda hefur hann takmarkaðan áhuga á að ræða pólitík undir þessum kringumstæðum.
Farþegi byrjar á að hugsa sér mann, viðkomandi er uppi á tímum heimstyrjaldarinnar og er ítalskur – „eða einhvers staðar nálægt Ítalíu.“ Það kemur því bílstjóra nokkuð á óvart að komast að því að umræddur maður er Jósef Stalín. Þegar farþegi veit svo ekki einu sinni hver Winston Churchill er þá sannfærist bílstjóri endanlega um að farþeginn viti einfaldlega ekki nokkurn skapaðan hlut um Síðari heimstyrjöldina og því séu varla mjög djúpar hugmyndafræðilegar ástæður fyrir þessu húðflúri.
Seinna keyra þeir inní Reykjavík og bílstjóri keyrir farþega upp í Breiðholt, þar sem hann stoppar við gangbraut til þess að hleypa ungri stelpu yfir.
Farþegi: Ah, þetta er Kamilla [nafni breytt], ég svaf hjá henni einu sinni.
Stuttu seinna er keyrt fram hjá stofnanabyggingu.
Farþegi: Hey, við kveiktum í þessu húsi þegar ég var fimmtán. Ég veit ekki alveg af hverju.
Bílstjóri keyrir loks upp að húsi í Breiðholtinu þar sem farþegi yfirgefur bílinn. Bílstjóri er óvenju feginn að vera loksins einn í bílnum.
En þótt þetta litla örleikrit hafi verið passlega dramatískt var auðvitað aðaldramað daginn eftir – þegar ég vann það verkfræðilega afrek að troða öllu dótinu í jeppa foreldra minna og fermdi hann þannig norður – þótt það hafi svona varla verið pláss fyrir sjálfan mig í bílnum.
Amma hundrað ára og Siggi kveður
Næstsíðasta vaktin á Mývatni innihélt til dæmis þetta göldrótta augnablik undir morgun:
„Fyrir hundrað árum var frostaveturinn mikli um það bil að skella á. En það sem skiptir meira máli er að þá fæddist amma Soffía. Hún hefði orðið aldargömul í dag ef hún hefði ekki kvatt okkur fyrir rúmum 17 árum. Allavega, þessi dagrenning er fyrir hana:“
Annars erum við alltaf að tala um túristana – en einstöku sinnum fær maður smá innsýn inn í það hvernig þeir sjá okkur. Þetta skrifaði ég t.d. hjá mér í einni ferð á Bláu könnuna:
„Sat á kaffihúsi þar sem tvær þýskar stelpur flettu Mogganum, stoppuðu á leiðarasíðunni og kímdu, jaðraði við að þær væru að hlæja – og bentu á skopmyndina hans Helga Sig. Ég veit eiginlega ekki hvað þetta átti að fyrirstilla; er Helgi Sig máski ekki spámaður í sínu föðurlandi en dýrkaður og dáður annars staðar, voru þessar stelpur máski þær einu í heiminum sem fatta húmorinn hans eða voru þær aðallega að hlæja að okkur molbúunum, þar sem elsta dagblað landsins er nógu molbúalegt að birta ennþá svona vondar teikningar? Möguleikinn að Helgi Sig hafi loksins verið fyndin eftir öll þessi ár er hins vegar of fjarstæðukenndur til þess að velta honum af alvöru fyrir sér.
Stuttu seinna settist svo skeggjaður maður í sætið þeirra og skar samlokuna sína með vasahníf í stað þess að treysta hnífapörum staðarins og allt varð eðlilegt aftur.“
En við erum að koma að skilum í frásögninni – síðasta vaktavikan á Mývatni að hefjast. Ég sakna samt labbitúrsins úr vinnunni töluvert meira en vinnunnar sjálfrar, enda átti ég veginn aleinn þá. Þetta var vegurinn minn – það keyrðu hann vissulega margir en ég var sá eini sem labbaði hann á hverjum degi. Undir lokin var ég meira að segja farinn að semja verklýðsljóð á labbinu heim – ef ég hefði komist í þann gír strax í byrjun sumars væri ég öruglega kominn með bók núna, en í staðinn á ég bara þrjú ljóð, þar af eitt fullklárað og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við hin.
Síðasta vaktavikan var svo auðvitað dramatísk út af því ríkisstjórnin sprakk svona rétt um það leyti og ég var að skúra forstofuna – en það er auðvitað óvíst hversu lengi í viðbót það telst til tíðinda að ríkisstjórnir springi. Svo dó Harry Dean Stanton rétt á eftir Sam Shephard – einhver sorglegur endurómur af Paris, Texas hlykkjaðist til Mývatns og svo rann síðasta vaktin upp og ég þurfti einhvern veginn að redda mér heim morguninn eftir, enda Strætó kominn á vetrardagskrá (lesist: gekk ekki lengur á miðvikudögum). Það fylgir því nefnilega að flytja til Íslands að þá man maður að bíllaus maður er annars flokks þegn.
En ég hafði upp á manni sem þyrfti að ferja bíl til Akureyrar í fyrramálið, hann mætti svo til mín í verkamannabústaðinn góða rétt fyrir níu – á skólabílnum. Ég svitnaði og hafði ekki hugmynd um hvort það þyrfti meirapróf á svona bíl, svona mini-rútu – en svo rúntaði ég með honum heim til hans þar sem öllu venjulegri bíll beið þess að vera fermdur til Akureyrar. Sem var bæði léttir og vonbrigði – ég var búinn að ímynda mér alls konar epískar sögur af því þegar ég myndi renna í hlaðið á Akureyri á skólabíl Mývatnssveitar.
Þetta var eina skiptið sem ég keyrði sjálfur heim – og því þótti mér rétt að nota aðstöðuna og prófa að borða í einni af þessum vegasjoppum sem voru á leiðinni. Leit inní eina slíka, fann syfjulegt nývaknað afgreiðslufólk og pantaði mat – og slysaðist til þess að kíkja á internetið. Þar sem ég las að Siggi Páls væri farinn. Þessi fátæklegu orð voru skrifuð þá:
„Hver er besta leiðin til að fá innblástur? „Svefnleysi,“ sagði hann glettnislega og við náttuglurnar í nemendahópnum kinkuðum kolli. Svo var ég svefnlaus en hamingjusamur á leiðinni heim af síðustu næturvaktinni núna í morgun, stoppa að fá mér að borða í vegasjoppu og er að velta fyrir mér hvaða frelsis-lag ég eigi að setja á fóninn þegar ég kem heim – en les svo andlátsfréttina og það brast á með þögn. Þessi rödd var þögnuð. Þetta kankvísa bros myndi aðeins lifa á myndum og bene bene aðeins heyrast í vanmáttugri endursögn. Ég hafði hlakkað til að hitta hann næst, bara einhvers staðar, en vissi að það var ekkert víst að það yrði eitthvað næst, ég bý jú ekki í Reykjavík lengur – og sé nú mest eftir að hafa ekki bankað uppá, tekið viðtal, gefið honum bók, bara eitthvað.
Og þessi rödd var raunar þegar byrjuð að hverfa – þessi skæra glaðværa rödd hafði misst kraft sinn og var orðin rám í kjölfar veikindanna, þá fann maður stálið í henni, ákveðnina. Það var erfiðara að tala en áður en orð skiptu máli, orð skipta öllu máli.
Og ljóð muna rödd.
Þetta er röddin sem við þurfum að muna – bene bene að eilífu!“
Og Siggi var svo magnaður að honum dugði ekkert minna en tvær Facebook-kveðjur. Sú síðari vitraðist mér viku síðar:
„Fór út að hlaupa áðan í Kjarnaskógi, skóginum sem afi Ármann gróðursetti ásamt fleiri góðum mönnum. Það er búið að bæta við stígum við aðalstíginn og mér tókst að villast (enda hliðarstígarnir nánast alveg eins) – en um leið og ég fann rétta stíginn aftur þá er Sigurður Pálsson kynntur til leiks í 2 daga gömlum Víðsjárþætti og hann talaði sannarlega beint til mín þarna á skógarstígnum:
„Óður um tré og skóga – annar hluti“
[…]
„Skógurinn er lifandi jörð sem hreyfist eins og grænt haf, hreyfist eins og grænt úthaf, rótfastur dansar skógurinn við skýin.“
[…]
„Tré sem vex er kennari, lífvera sem kennir okkur að sjá hlutina á bak við hlutina, fræið bak við tréð, áform sem vex eins og lífvera, fjölgar sér eins og lífvera, deyr eins og lífvera.“ “
Og skyndilega var ég ekki týndur lengur.
Akureyri-Reykjavík-Malmö-Köben-Prag
Ég fór samt ekki beint heim til Prag eftir síðustu vaktina. Fyrst var vika á Akureyri, svo vika í Reykjavík og loks vika í Malmö og fáeinir dagar í Kaupmannahöfn. Á Akureyri náði ég að kíkja í heimsókn til systur minnar sem var nýflutt aftur í bæinn og kaus svo löngu áður en það var komið á hreint hverjir væru í framboði. Fulltrúi sýslumanns sat þar aleinn í þartilgerðu herbergi og mér fannst hálfgerð synd að vera að fara – ég hefði getað staldrað við í nokkrar vikur og kíkt í heimsókn á hverjum degi og kosið eitthvað nýtt. Svo myndi ég selja Braga Ólafs skáldsöguréttinn.
Í Reykjavík var svo slegið upp Bóksölupartí þar sem fyrrum starfsmenn skiptust á stríðssögum – plús einn núverandi sem villtist með. Aðallega var ég samt að hanga á RIFF, þar sem hápunkturinn var augljóslega að sjá Werner Herzog árita gervifót.

Egypsk-Íslenski stuðningsmannaklúbburinn. Finnski antisportistinn tók myndina, takk Harri!
Strax á eftir var svo arabíska kvikmyndahátíðin í Malmö – sem ég mun gera betri skil annars staðar síðar, en þetta leystist svo upp í fölskvalausa fótboltagleði þegar Egyptaland og Ísland tryggðu sér sæti á HM sama kvöldið.
Öllu þessu flandri fylgja svo ótal ferðatöskur og pakkningar – hér er upprifjun á næstmesta verkfræðiafreki ársins. Sumsé, hér kemur stutt ljóð um að pakka:
Hvernig pakka skal ógeðslega miklu og borga samt ekki yfirvigt á tveimur mismunandi flugvöllum:
(Leyfilegur farangur: 23 kílóa taska, handfarangurstaska og tölvutaska)
1: Setja allt þyngsta dótið í handfarangurstöskuna, s.s. bækur og þung raftæki.
2: Mæta út á Keflavík og komast að því að stóra taskan er samt tveim kílóum of þung – taka þrjár þyngstu bækurnar í henni (Codex eftir Sjón, Allt fer eftir Steinar Braga og hlunk um sögu Prag) og troða þeim einhvern veginn í tölvutöskuna (ég á vel að merkja þyngstu fartölvu í veröldinni).
3: Mæta rúmri viku seinna á Kastrup, eftir vikudvöl í Malmö og 2 daga í Köben. Mögulega með örlítið meira dót. Passa að pakka helst nákvæmlega eins og síðast.
4: Mæta í innritun á Kastrup og vera samt með 4 kíló í yfirvigt. Taka nógu mikið úr töskunni til að koma þessu niðrí 23,1 kíló. Það slapp.
5: Standa við ruslatunnu í Kastrup með handfarangurstösku, tölvutösku og helling af munaðarlausu dóti.
6: Troða því sem hægt er í þessar tvær töskur.
7: Brjóta rammann af viðurkenningarskjalinu sem ég hafði fengið tveim dögum áður, halda skjalinu og setja inní myndasögubók.
8: Henda líka rakspíra og tannkremstúbu sem voru hvort eð er nánast tóm, inniskónum sem hótelið gaf mér þegar þeir tilkynntu mér um þessa „shoe policy“ sem þeir voru með í morgunmatnum og einhverju fleiru.
9: Taka nokkrar bækur sem stóðu undir því að kallast vasabrotsbækur og troða þeim í vasana. Fara í aukajakkann sem ég var með og fara í tvöföldum jakka í gegnum innritunina.
10: Koma heim og prófa að vigta handfarangurinn – hann var líka 23 kíló.
Return to Praha
Óskin rættist þegar ég kom til Prag; þótt það væri kominn 13. október var samt smávegis eftir af bæheimska sumrinu. Þannig að maður gat örlítið náð að borða úti, lesa bækur á grasbökkanum við Moldána og praktísera aðra lífsnauðsynlega hluti sem er oftast ómögulegt að gera á Íslandi oftar en svona tvisvar á ári.

Lest við MeetFactory. Þangað labbaði ég ósjaldan til að vinna í vídjóljóðum með Darrell.
Já, og taka viðtal við tékkneskan þingfréttaritara í Alþingisgarðinum tékkneska. En þótt tékknesk byggingarlist sé svona almennt nokkur hundruð þúsund ljósárum á undan þeirri íselnsku erum við að vísu með miklu betri Alþingisgarð og meira að segja betra þinghús líka. Enda vita Tékkar að það er óþarfi að spandera besta arkítektúrnum á pólitíkusana (Þótt þessi höll sem forsetinn býr í sé svosem ekki sem verst).
En viðtalið var um tékknesku kosningarnar sem voru degi á undan þeim íslensku – þannig runnu þessar kosningar í löndunum mínum tveimur saman og lokaniðurstaðan var auðvitað að bæði Íslendingar og Tékkar reyndust óþarflega vitlausir, á gerólíkan hátt þó.
En þetta voru síðustu leiðtogakappræðurnar sem nokkur maður kemst í gegnum ógrátandi – og á endaum verður þetta kannski bara taumlaus grátur. Þetta veit Nick Cave manna best og þegar ég fór á tónleika í fylgd með tíu Pólverjum úti í úthverfi borgarinnar þá tók hann epíska útgáfu af The Weeping Song í tilefni þess að kosningarnar væru afstaðnar.
Framan af ári voru bíómyndir og skúringar líklega leiðarstef ársins – en bókmenntirnar komu sterkt inn undir lokin. Bæði fór ég að dekka jólabókaflóðið fyrir Stundina – sem endaði stundum á svona senum á tehúsum borgarinnar:
„Fór á tehús til þess að klára að skrifa gagnrýni á skáldsögurnar þrjár sem ég hef verið að lesa. Fyrsta bókin var hálf slöpp – og fyrsti tebollinn var hálf útvatnaður. En þetta er alvöru tehús með allskonar tei og rétt eins og önnur bókin sem ég las var töluvert betri þá var tebolli númer tvö mun betri, meiri fylling, meiri alvara. Þriðja bókin var svo fjandi góð – þótt hún stæðist kannski ekki samanburðinn við bragðsterkt nepalskt teið, sem ég treysti að sé spásögn um að í næsta bunka sé einhver bók sem sé nógu mikið meistaraverk til að eiga þetta nepalska te skilið. Enda dýrt kveðið, nærri tvöfalt dýrara en hitt teið – en algjörlega þess virði.“
Svo fór ég að vinna í ljóðavídjóum með honum Darrell, eins og ýjað var að ég hér fyrr í textanum – líklega einhvern tímann í mars-apríl. Það var raunar um það leyti sem ég kynntist Darrell, Vestur-Íslendingi sem bjó á Íslandi – meðal annars á Mývatni – á áttunda áratugnum og var þá aðallega þjóðfræðingur og tónlistarblaðamaður og kann alls konar sögur af Spilverkinu og öðrum þess tíma böndum og veit þar að auki allt um rímur. En núna er hann aðallega vídjólistamaður, sem spilar live vídjó með tónlist – og svo plataði hann mig með sér í að búa til vídjó til að flytja live með ljóðum. Akkúrat núna er prógrammið oftast svona: Framtíðin rímixuð með myndum frá Buzludzha, höfuðstöðvum búlgarska kommúnistaflokksins, og Krímskaginn, Sýrlandi með myndskeiðum af grímunum hans Darrell, sem ég prófaði að setja á nokkra listamenn. Svo eru tveir fjarstaddir gestir – bæði myndbandið af Jóhönnu sem Gunnlaugur Starri mixaði fyrir mig og svo tek ég Draughenduna hans Ara Jóseps sem cover-ljóð til að hræða mannskapinn. Ég tók myndefnið sjálfur – en það er Darrell sem mixar það, þið þurfið helst að sjá þetta til að fatta galdurinn. En hugmyndafræðin er kannski ekkert mjög ólík því sem Starri er að vinna með hér með Jóhönnu.
Hátíðarnar var ég svo á flakki. Ég yfirgaf Prag á Þorláksmessu, eftir að hafa keypt síðustu jólagjafirnar á jólamarkaðnum um morguninn. Ég var auðvitað á síðustu stundu – svitnaði í neðanjarðarlestinni á meðan ég undirbjó mig fyrir að hlaupa gervalla lestarstöðina á enda til þess að vera kominn upp í lest kl. 10.01.
Aðaldramað var svo þegar ég millilenti í Linz. Ég var kominn út úr lestinni og í göngin fyrir neðan brautarpallinn þegar ég ætlaði að veiða upp lestarmiðann minn til að sjá hvenær seinni lestin mín færi. En ég fann engan miða – og það sem verra var, ekkert vegabréf (en ég hafði geymt miðann inní vegabréfinu). Ég leitaði í öllum töskum og öllum jakkavösunum fimm og fór aftur inní lestarklefann – en ekkert fannst. Fann svo lestarvörð sem þvældist með mér á milli lögreglustöðvarútibús, miðasölu og Lost&Found skrifstofu sem var lokuð á laugardögum – og enn fannst ekkert.
Ég var sem betur fer með afrit af miðanum í símanum – en þegar ég var sestur í seinni lestina þá fattaði ég loksins að það voru ekki bara fimm vasar á vetrarstakknum mínum, heldur sex. Sem var vissulega léttir – en núna er ég samt með smá samviskubit yfir að hafa þurft að trufla lestarvörðinn í Linz svona mikið. Hann var afskaplega hjálplegur í þessu öllu saman – þannig að ef þið hittið dökkhærðan lestarvörð frá Linz með sítt að aftan þá megið þið endilega knúsa hann fyrir mig, hann á það skilið.
Jólin voru svo í Týról, nánar tiltekið í gömlu góðu Längenfeld, með viðkomu í Sölden. Og þótt ég hafi komið nokkrum sinnum til útlanda fyrir haustið 1997 þá byrjaði mitt flökkulíf eiginlega þá, þegar ég bjó í fyrsta skipti í útlöndum og vann við að bera matarbakka í burtu frá góðglöðum skíðamönnum og notaði svo sömu matarbakka til að húrra niður fjallið á kvöldin þegar það var eitthvað stuð í bænum eða fótboltakvöld í íþróttahúsinu með öllum Bosníumönnunum. Það var þarna sem ég varð ródjó, sjáiði til, og svo var það eftir þennan vetur sem ég fór á Evrópuflakkið um vorið, sem mér finnst ég eiginlega stundum vera enn á.
En allevega, núna er Týról aðallega staðurinn sem ég hitti Drífu frænku og Zoran og öll þeirra börn, plús börnin þeirra Gorans og Sönju, sem og auðvitað Siggu frænku sem er ennþá duglegri en ég að koma þangað um jólin. Síðast þegar ég var þarna, fyrir 2 árum, þá sá Aleksander frændi um dramað með því að fara upp á spítala á aðfangadag þannig að við frestuðum jólunum um einn dag. Núna bjargaði hann hins vegar jólunum á dramatískan hátt, því þegar Viktor litli var að leita af síðasta pakkanum fór ristastórt jólatréð allt af stað og Aleksander flaug af stað eins og Súpermann sjálfur og náði að grípa það áður en það skall á gólfið – áður en við hin áttuðum okkur almennilega á því að tréið væri að detta.
En þetta er auðvitað einhver fjölmennustu jól sem hægt er að hugsa sér – tveir bosnískir tvíburabræður með eiginkonur, samtals sjö börn og eina frænku og einn frænda. Svo er borðtennisborð í kjallaranum og ég þarf greinilega að æfa vel fyrir næstu heimsókn svo ég geti loksins unnið Aleksander frænda. Þar kemur sér vel að hafa loksins uppgötvað bar í Prag með borðtennisborð. Og súpu á sunnudögum, sem er ekki síður mikilvægt.

Í Innsbrück keypti ég líka nýjan miðherja í körfuboltaliðið sem ég ætla að stofna á árinu. Þessi kann sko að troða!
Þann fjórða í jólum hélt ég svo til Innsbrück í dagsferð. Það eru nefnilega sumar borgir í lífi manns sem maður fer ótal sinnum í gegnum í lest – en stoppar eiginlega aldrei. Innsbrück er búin að vera þannig fyrir mér í nærri tuttugu ár, eða síðan veturinn 97-8 þegar ég fór þangað stundum á frídögum og þurfti að komast í menningu. Lestist: bíó eða bókabúðir. Þarna sá ég Titanic forðum daga og keypti allan katalóginn sem þá var til af Paul Auster – og fattaði löngu seinna þá fallegu stuðlun að ég hefði lesið allan Auster í Austurríki. En mig rámaði í að borgin væri falleg þannig að mér fannst kominn tími á að stoppa. Og hún er það – ævintýraverur úr Grimmsævintýrum eru við húsgafla í miðbænum og best af öllu er samt barrokkeinvígið klukkan fimm í kringum jólin. Þá mætir maður á aðaltorgið þegar fer að dimma, þar eru gömul Habsborgaraleg glæsihýsi – og skyndilega birtist virðuleg barrokhljómsveit á einum svölunum og byrjar að spila – og þegar hún þagnar þá heyrast tónar af næstu svölum. Svona gengur barrokkbattlið í einhvern tíma, þangað til öllum er orðið kalt líklega – þá fara allir inn og fá sér glühwein.
Prag er svo miðja vegu á milli Týról og Berlínar (að vísu mun nær Berlín) og því stoppaði ég í einn sólarhring til að setja í eina þvottavél og þrífa hvítu skyrturnar og þurrka fyrir áramótin. Þau liðu í frábærum félagsskap í Friedrichshain, með tveimur vinapörum, einu setti af tengdaforeldrum og venesúelskum leynigesti. Og ekki einni sekúndu af sjónvarpsglápi, en nóg af mat og drykk og samræðum til að bæta fyrir skaupskortinn.
Svo lauk árinu einhvers staðar þarna þar sem leigubíllinn í götunni fyrir neðan var fastur á milli tveggja flugelda. Hann komst þetta samt á endanum. Vona svo bara að þið komist öll í gegnum næsta ár heil á húfi,
ykkar,
Ásgeir
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Recent Comments