Minning um pabba
Posted: September 13, 2019 Filed under: Uncategorized Leave a commentHvernig byrjar maður eiginlega á að kveðja pabba sinn? Prófum þetta, byrjum á Drekabrúnni í Ljubljana, þann 22. desember 2002. Ljubljana þýðir ástkær á slóvensku. Svona nokkurn veginn, skeikar eins og einum staf. Þetta var rétt fyrir jól, á afmælinu hans pabba. Fáar borgir eru jólalegri en Ljubljana í sínum desemberbúning og þar keypti ég mér súkkulaðihúðað epli og kerti, fór með hvoru tveggja á Drekabrúnna og kveikti á kertinu fyrir pabba og hringdi afmælissímtalið til hans, kjamsandi á súkkulaðihúðuðu epli, sem er vanmetin uppfinning sem aðrar þjóðir mættu vel taka upp. Ég veit hins vegar ekki hvort pabbi hitti nokkru sinni dreka, en ég veit hins vegar að ef það gerðist þá hefði drekinn hjúfrað sig í fangið á honum – því það gerðu öll dýr. Á meðan við systkynin þurftum að hafa fyrir því að læra trikkin til að laða ketti og hunda hverfisins að okkur þá þurfti pabbi bara að vera, þau komu bara.
Þetta afmæliskvöld var hann tiltölulega nýbakaður ellilífeyrisþegi sem vann sem leiðsögumaður í hjáverkum. Mamma var ennþá að vinna, ég man ég hlakkaði til fyrir þeirra hönd þegar hún myndi hætta svo þau gætu ferðast áhyggjulaus um heiminn í rólegheitum, eitthvað sem ég vissi að blundaði í þeim. Tæpum sex árum seinna fór pabbi svo sjálfur til Slóveníu, með Agga skáfrænda og fleirum í ferð gamalla gagnfræðinga. Ég hef sjaldan séð hann glaðari en þegar þeir kallarnir komu heim – blaðskellandi og glettnir, pínulítið eins og þeir hefðu gengið aftur í unglingsdóm Gagnfræðaskólaáranna. Hann gaf mér svartan Slóveníu-bol, sem á einhvern dularfullan hátt verður alltaf síðasti bolur fyrir hrun. Bæði af því þetta var rétt fyrir hrun og líka af því þetta var síðasta skiptið sem ég hitti hann eins og hann átti að sér að vera, rétt fyrir heilablóðfallið.
Það var skammtímaminnið sem fór fyrst og nú þarf ég að treysta á langtímaminnið til að muna hann eins og hann var, áður en hann byrjaði að hverfa okkur. Búandi ýmist hinum megin á landinu eða í öðrum löndum þá var hann alltaf horfinn aðeins lengra í burtu í hvert skipti sem ég hitti hann, aðeins fjær raunveruleikanum. En þá kom samt betur í ljós dálítið prakkaralegur stríðnispúki í honum – þegar hann skynjaði ekki heiminn almennilega lengur þá sá hann held ég stundum betur hvað þessi heimur gat verið spaugilegur.
En ég man að þegar ég byrjaði í kennsluréttindanámi þá var ein spurning sem við þurftum ítrekað að svara, í mismunandi útgáfum: hver var uppáhaldskennarinn? Hvar lærðirðu mest um kennslu? Hvenær fékkstu áhuga á kennslu? Og svarið var alltaf: hjá pabba. Samt kenndi pabbi mér aldrei (nema nokkra aukatíma í stærðfræði rétt fyrir próf í menntaskóla), enda passaði hann alltaf að kenna aldrei börnunum sínum og var auk þess löngu hættur að kenna í Gagnfræðaskólanum þegar ég kom þangað. En hann var skólamaður allt sitt líf og í hvert skipti sem ég kom heim úr skólanum og annað hvort bölvaði eða dásamaði einhvern kennara þá var hann alltaf til í samræður um það, alvarlegan samræður um kosti og galla kennslunnar við lítinn pjakk sem vissi örugglega ekki hvað orðið kennslufræði þýddi. Ólíkt mér þurfti hann samt aldrei að eiga lokaorðið, hann hjálpaði mér einfaldlega að finna lokaorðin sjálfur.
Og það var galdurinn við uppeldið hjá honum og mömmu – þau ræktuðu með okkur forvitni og kynntu okkur fyrir hlutum án þess nokkurn tímann að beina okkur í einhvern ákveðinn farveg, nestuðu mann með gagnrýnu umburðarlyndi og kenndu okkur að mæta lífinu með opnum hug.
Pabbi var samt hlédrægur. Hlédrægur en ákveðinn – og ég vissi að hann þurfti að takast á við alls kyns erfið mál í starfi sem skóla- og menningarfulltrúi, mál sem væru sum fljótafgreidd í dag en voru meira tabú þá. Mál sem þótti oft þægilegra að sópa undir teppið þá. En það gerði hann aldrei, hann kláraði öll slík mál af einurð og tryggði að börnin nytu ávallt vafans.
Hlédrægnin þýddi að það var vissulega aðeins erfiðara að kynnast honum en annars, átta sig á hver hann var, heyra meira en glefsur um árin í Skotlandi og menntaskólaárin og hvernig þau mamma kynntust. En eftir að hann hætti að vinna, eftir að hann kastaði embættismannajakkafötunum, þá fann maður að það létti á honum. Það varð auðveldara að má honum á kjaftatörn, fá hann til að hverfa aftur til fotíðarinnar sem maður þráði að vita meira um. Það var eitthvað samtal sem mér fannst við eiginlega vera nýbyrjaðir á þegar allt hrundi.
Páskana árið áður hafði ég komið í heimsókn og pabbi þurfti mikið að tala við mig. Tilefnið man ég ekki lengur, en pabba fannst alltaf betra að tala á ferð, helst á göngu. Þannig að hann vildi endilega labba fram og til baka eftir stígnum langa hjá Akureyrarflugvelli. Vandinn var að ég var bara með venjulega götuskó meðferðis sem dugðu ágætlega innanbæjar en yrðu til lítils gagns í slabbinu og drullunni sem ég vissi að væru þarna. En pabbi dó ekki ráðalaus og sagði að ég gæti fengið Skarphéðinsskóna lánaða, þá goðsagnakenndu gönguskó. Þeir voru auðvitað alltof stórir í mig, þrátt fyrir tvöfalda sokka – og þegar við vorum að þramma þennan veg, fram og til baka, þá voru hælarnir á skónum ítrekað að höggva í hælinn á mér, þannig að ég reyndi bara að hlusta á pabba og harka af mér og kvartaði auðvitað ekki neitt. Kom svo heim alblóðugur um lappirnar með risastóran skurð sem seinna varð að myndarlegu öri. Og hugsaði sjálfsagt að maður hefði kannski lagt fullmikið á sig fyrir góðan labbitúr með pabba. En núna þrái ég ekkert meira en einn góðan labbitúr í viðbót, því enn er svo margs að spyrja.
Í staðinn þarf ég að spyrja Drekabrúna svara, eða leynisteininn okkar í skóginum eina, og hver veit nema erindið berist þér? Það eina sem ég veit er að núna er kominn tími á að kveðja ástkærann pabba og ganga með honum síðustu sporin, í þeirri vissu að hann gerði heiminn örlítið betri á hverjum einasta degi.
Ásgeir H Ingólfsson
Recent Comments